Thursday, June 6, 2013

Iguazú ferðin

Núna er ég komin heim úr mjög skemmtilegri ferð til norður Argentínu. Við vorum tæplega 50 skiptinemar alls staðar að úr heiminum. Það var sérstaklega skemmtilegt að hitta hinu íslensku krakkana sem voru í ferðinni. Það var mjög skrítið að tala íslensku í fyrsta skiptið í 9 mánuði (nema á Skype auðvitað).
Við ferðuðumst tæpar 70 klukkustundir í rútunni á þessum níu dögum! Við höfðum sem betur fer sæti sem var hægt að breyta í rúm og það fór nú bara nokkuð vel um okkur.


Stuð í rútunni
Fyrst fórum við til Salta sem er mjög falleg borg. Við fórum í kláf upp á fjall þaðan sem var hægt að sjá yfir alla borgina. Við fórum líka í river rafting en það var nú ekkert brjálað, var meira til þess að njóta útsýnisins. Síðan skoðuðum við námu og sáum mennina vinna, ég var vægast sagt fegin að komast þaðan út! Það var samt mjög flott að sjá alla steinana.
Útsýnið úr kláfnum
Á leiðinni inn í námuna
Við fórum svo einn dag til Jujuy og skoðuðum það sem er kallað fjöllin í sjö litunum. Fjöllin voru alveg ótrúlega falleg og þar voru lítil þorp sem voru mjög afskekkt. Þetta var í tæplega 3000 metra hæð yfir sjávarmáli og fólkið tyggur mikið af kókalaufum til að þola hæðina.
 
 
Risa kaktusar!
Kókalaufin
Einn daginn fórum við á safarí jeppum inn í frumskóginn.  Þar var búið að byggja palla uppi í stórum trjám og milli trjánna var búið að setja víra. Það voru sett á okkur belti og hjálmar og síðan sveifluðum við okkur á milli trjánna. Við fórum líka í klettasig og sem var 18 metra hátt. Eins og flestir vita er ég frekar lofthrædd og ætlaði alls ekki að treysta mér í sigið. Síðan ákvað ég að taka af skarið og ég hef sjaldan verið jafnhrædd og þegar ég seig fram af brúninni! Á miðri leið niður var ég orðin góð og þá var þetta bara gaman :) 

Sönnun fyrir því að ég gerði þetta í alvörunni :)

Við höfðum verið heppin með veðrið alla ferðina, þangað til að við fórum í Iguazú þjóðgarðinn. Þá hellirigndi allan daginn! Við létum það samt ekki eyðileggja fyrir okkur og þrumurnar gerðu þetta bara ennþá meiri upplifun. Það keyptu sér nánast allir rándýrar regnslár inni í þjóðgarðinum en við enduðum samt öll á því að verða gegnblaut.  Fossarnir eru það magnaðasta sem ég hef séð enda eitt af sjö undrum veraldarinnar. Það er ekki hægt að lýsa því hvað þeir eru stórir og kraftmiklir. Við sigldum á bát á ánni fyrir neðan fossana og sigldum meira að segja undir einn af litlu fossunum.
Við skoðuðum líka þreföldu landamærin á milli Argentínu, Brasilíu og Paraguay.

Ég vona að þið hafið gaman af því að lesa bloggið og sjá myndirnar :)
-Guðbjörg Eva


Allar í flottu regnslánum

Í siglingunni

Þreföldu landamærin


Síðan varð ég bara að setja inn mynd af mjóasta hundi sem ég hef séð :(

Friday, May 3, 2013

8 mánuðir

Það er farið að styttast verulega í heimferðina, ég er meira að segja komin með flugáætlunina og lendi á Íslandi 18. júlí. En ég ætla að nýta tímann sem ég á eftir hérna og er búin að skrá mig í ferð til norður Argentínu og að skoða Iguazu fossana. Ferðin er í lok maí og ég fer með næstum öllum hinum skiptinemunum í Córdoba.

Fyrir nokkrum helgum var AFS með útilegu fyrir alla skiptinemana og það var mjög gaman að hitta alla krakkana. Við erum 10 skiptinemar sem komum í ágúst og förum saman heim í júlí og erum öll frá Evrópu.

                       
Í síðustu viku tók bekkurinn minn þátt í sjónvarpsþætti sem er keppni á milli bekkja með allskonar þrautum og spurningum. Við fengum frí í skólanum um daginn og eyddum deginum í miðborginni. Á meðan við löbbuðum um var byrjað að kalla „EVA!“ og ég leit við og hélt að þetta væri einhver sem ég þekkti. En við föttuðum síðan að ég var í skólabúningnum sem er með nafninu mínu á bakinu. Þetta var alveg hópur af strákum og síðan þegar við komum að stúdíóinu þar sem þátturinn var gerður kom vinur minn til mín og sagði mér að vinir mínir væru að spyrja hvar ég væri. Þá var þetta bekkurinn sem átti að keppa á móti okkur í þættinum. Það var meira að segja einn af þeim sem hét Adam (Adam og Eva fyrir þá sem föttuðu þetta ekki) og síðan vildu þeir fá mynd af sér með mér fyrir Facebook! Krökkunum í bekknum mínum fannst þetta nú ekki leiðinlegt.
Okkur gekk hins vegar ekkert of vel í þættinum og töpuðum. En þetta var samt mjög skemmtilegur dagur sem ég á örugglega ekki eftir að gleyma.


Hluti af krökkunum sem tók þátt í þættinum
Allir bekkirnir með sinn fána og skólabúning
Fyrsti maí var frídagur hérna og þá safnaðist fjölskyldan saman til að borða hefðbundinn argentínskan rétt sem ég hafði aldrei smakkað áður. Þetta var voða svipað og íslenska baunasúpan nema það var sett sterk sósa út á.
 
Skólinn gengur bara vel hjá mér, á þriðjudaginn þurfti ég að gera munnlegt próf í lögfræði um réttindi og skyldur starfsmanna á Íslandi. Ég nýtti mér það auðvitað að eiga systur sem er að læra lögfræði :D Þýddi textann á spænsku og mér gekk síðan bara vel að segja kennararnum frá. Það sem kom öllum mest á óvart voru lágmarkslaunin og uppsagnarfresturinn á Íslandi.

Á hverjum degi er fáninn settur upp á morgnanna og dreginn niður á kvöldin. Einn daginn fékk ég að taka fánann niður og rétta skólastjóranum hann. Allur bekkurinn kom og stóð með mér hjá fánastönginni og það var tekin mynd af okkur.

-Eva

 
Áður en ég tók fánann niður
 
Skólinn minn verður 50 ára í ár


Friday, April 5, 2013

Páskar og nýjar skólapeysur

Það er orðið frekar langt síðan ég bloggaði síðast en ég bæti það bara upp með þessu bloggi :D

Skólinn byrjaði aftur eftir sumarfrí í byrjun mars. Það var ótrúlega fínt að byrja aftur í skólanum og hitta alla krakkana eftir fríið. Það kom mér skemmtilega á óvart fyrstu dagana að mér fannst mér hafa farið svo mikið fram í spænskunni síðan í byrjun desember. Ég er í svipuðum fögum og í fyrra nema að núna er ég líka í lögfræði, hagfræði, heimspeki og leiklistartímum. Núna er bekkurinn minn kominn með stofu á efri hæðinni og erum elst í skólanum.
Eftir fyrsta skóladaginn
Ég, Amalie og Anna skelltum okkur á fría tónleika með The Jonas Brothers sem voru haldnir í stórum almenningsgarði í Cordoba. Við vorum frekar nálægt sviðinu og höfðum gott útsýni enda talsvert hærri en flestar stelpurnar sem voru líka á tónleikunum :D


Ég fékk pakka frá Íslandi sem innihélt meðal annars lítil páskaegg. Mér fannst mjög gaman að geta leyft fjölskyldunni að prófa íslensk páskaegg og þau voru mjög hrifin.
Ég átti mjög góða páska og nýtti páskafríið í að hitta krakkana í bekknum og aðra skiptinema. Á heimilinu voru búin til páskaegg og súkkulaði páskakanína. Eins og sést á myndunum var lögð mikil vinna í að skreyta :)


Hérna í Argentínu er hefð fyrir því að útskriftarárgangurinn geri sérstaka skólabúninga sem er lögð mikil vinna í að hanna. Það var búið að segja okkur að við fengjum peysurnar okkar 12. mars en dagsetningunni var seinkað þrisvar sinnum. Við enduðum á því að fá peysurnar núna 3. apríl, samt þremur tímum seinna en var búið að ákveða en við vorum orðin svo spennt að fá þær að það skipti ekki máli! Það voru allir krakkarnir málaðir í framan með sömu litum og peysurnar. Það var líka búið að gera fána bekkjarins með öllum nöfnunum. Þegar var búið að afhenda okkur peysurnar löbbuðum við í skólann, með trommur og syngjandi. Þegar við komum inn í skólann fylgdust allir hinir krakkarnir með. Restin af deginum fór í endalausar myndatökur og þetta var mjög skemmtilegur dagur. Það verður gaman að eiga peysuna til minningar um þetta æðislega ár og bekkinn minn.
-Guðbjörg Eva

 
 

Wednesday, February 27, 2013

Rottur og rafmagnsleysi

Þið verðið að fyrirgefa hvað er langt síðan ég bloggaði síðast en ég hef allavega þá afsökun að við erum búin að vera netlaus í 10 daga.
Síðustu dagar hafa farið mest í það að hitta hina skiptinemana og krakka úr bekknum. Skólinn byrjar aftur á föstudaginn og ég er orðin spennt að byrja. Sjötti bekkur er alltaf með sértaka skólabúninga sem bekkurinn hannar sjálfur og bekkurinn minn er búinn að panta peysur og boli.
Við vorum nokkrar skiptinema stelpur niðri í bæ um daginn og allt í einu sé ég alveg rosalega blá augu og hugsaði með mér hvað það væri skrítið. Svo áttaði ég mig á því að þetta var norsk stelpa sem ég hafði hitt í undirbúningsbúðunum með AFS fyrir næstum sex mánuðum. Hún var þarna með norsku foreldrum sínum sem voru að heimsækja hana. Ég æddi auðvitað í að heilsa þeim með kossi á kinnina og þeim fannst það greinilega skrítið. Þarna sá ég nákvæmlega hvernig ég var fyrstu vikurnar áður en ég vandist þessu :)

Ég get ekki sagt að hafi verið leiðinlegt að vera í Suður-Ameríku þegar það eru haldin carnaval :D Fyrst fór fjölskyldan á lítið carnaval fyrir hverfið okkar og síðan var haldið annað stærra carnaval fyrir allan bæinn. Það voru fjórir dagar af tónlist, dansi og skreyttum vögnum. Ég fór með nokkrum bekkjarsystkinum mínum eitt kvöldið og það var mjög gaman. Það voru allir með sprey sem eins og gervisnjór að spreyja á hvert annað. Fötin urðu alveg blaut í gegn af þessu spreyi og hárið á mér var eins og eftir ballettsýningu!
Dansarar á öllum aldri :)

Annar hundurinn hafði verið að þefa voða mikið í kringum annan bílinn á heimilinu og síðan var það uppgötvað að það búa rottur í bílnum! Þegar húddið var opnað kom í ljós þær voru búnar að stela og safna saman hundamat hjá vélinni. Ég efast ekki um að þær hafi það mjög huggulegt þar.
Hundamaturinn
 Eitt skiptið sem ég fór út með öðrum skiptinema stelpum kom 27 ára náungi sem vildi endilega fá mynd af sér með okkur (að vera ljóshærð vekur athygli, hvað þá þegar við erum þrjár saman). Ég reyndi að hlæja ekki of mikið þegar hann byrjaði að syngja lag með Rammstein (af því að ein stelpan er frá Þýskalandi) fyrir okkur og svo kunni hann bara fyrstu setninguna. Ég gat ekki hamið mig lengur þegar hann bað okkur um að fá nöfnin okkar til þess að hann gæti addað okkur á Facebook og besta afsökunin sem Amalie gat komið með var að hún væri nýbúin að skipta um nafn á Facebook og hún myndi nafið ekki. Ég er ekki viss um að hann hafi trúað því...
Austurríki, Ísland, Þýskaland, Danmörk
Í síðustu viku kom rosa stormur og það var svo kalt dagana eftir að ég notaði lopapeysuna mína. Ég hefði ekki getað ímyndað mér að vera svona kalt í meira en 20 stiga hita! Fyrir nokkrum dögum var ég að gera grín að því að það var byrjað að selja hlý föt í búðunum og það voru ennþá meira en 30 gráður. Það var svakalega mikil rigning, rok, þrumur og eldingar og það kom meira að segja haglél (í svona 30 gráðu hita samt!). Það var lítil brú yfir á rétt hjá húsinu mínu og hún flaut bara í burtu út af því að áin stækkaði svo mikið í allri rigningunni! Það er líka búið að vera mikið um rafmagnsleysi út af veðrinu og einn daginn var rafmagnslaust í heilan sólarhring.
Það sem var einu sinni brúin
Ég var svo heppin að fjölskyldan mín fór með mig á danssýningu sem var haldin í almenningsgarði hérna í Córdoba. Það var frægur argentínskur ballett dansari sem var aðalstjarna sýningarinnar. Sýningin var blanda af klassískum ballett og tangó sem kom mjög vel út og sýningin var ótrúlega flott!
 
Ég, Amalie og Anna vorum heim hjá Amalie og ætluðum að fara út. Hún býr á sjöundu hæð og ég spurði hvort hún notaði aldrei stigann og síðan fórum við í lyftuna. Lyftan bilaði og stoppaði á milli hæða! Ég panikkað (vægast sagt...) og opnaði innri hurðina (það eru tvær, sú innri er harmonikku hurð – sést á myndinni) og við sáum hálfa ytri hurðina. Ég var alveg ákveðin í því að skríða út til að komast út úr lyftunni en stelpurnar náðu að stoppa mig. Lyftan var svo lítil að við komumst rétt þrjár fyrir og við höfðum farið út kvöldið áður og sváfum í þrjá tíma um morguninn og ég vil halda því fram að það hafi átt þátt í viðbrögðunum hjá mér. Amalie byrjaði á því að reyna að koma okkur út og við skulum bara segja að ég hafi ekki alveg verið í ástandi til að hjálpa og Anna var að reyna að róa mig. Amalie byrjaði á því að ýta á alla takkana í lyftunni en það kom í ljós að bjöllu takkinn var bara hafður með til skrauts. Þá fór hún að öskra: „HELP US!!“  og þá sagði Anna að það myndi enginn skilja það og að við yrðum að kalla á spænsku. Þær byrjuðu síðan að tala um að það hefði verið sniðugt að kunna að segja hjálp og mér fannst þær voða rólegar yfir þessu öllu saman. Lyftan fór sem betur fer aftur af stað og ég var mjög fegin þegar ég komst út! Ég tók stigann þegar við komum til baka...

Skársta myndin sem ég náði af lyftunni

Wednesday, January 23, 2013

18 ára afmæli

Er búin að gera alveg helling síðan ég bloggaði síðast. Skiptinemarnir sem komu í febrúar og þeir sem komu í hálft ár fóru um miðjan janúar. Vikuna áður hafði ég verið nokkuð upptekin við það að fara í kveðjupartý og síðan fóru allir skiptinemarnir á rútustöðina til að kveðja þau í síðasta skiptið. Það var mjög sorglegt að þurfa að kveðja þau og að sjá þau kveðja vini og fjölskyldu.

Ég og dönsk vinkona mín fórum út að borða um daginn og ég varð ekkert smá stolt þegar var byrjað að spila Little talks með Of mosters and men! Daginn eftir vorum við að labba um miðbæinn í Córdoba og þá sá hún búð sem seldi nælur með argentínska fánanum og svo með öðrum fána. Við fundum danska fánann um leið og ég hélt að það væri ekki séns að við myndum finna þann íslenska. Þannig að þegar hún sagði mér að hún sæi íslenska fánann hélt ég að hún væri að ruglast en hann var í alvörunni til!! Þegar við fórum inn í búðina og báðum um nælur með íslenska og danska fánanum hafi starfsfólkið auðvitað ekki hugmynd um hvaða fánar það væru. Ég efast ekki um að sá íslenski hafi staðið mörg ár í þessum búðarglugga!
Fallega nælan mín :)

Ég reyndi að finna sjónvarpsstöð sem sýndi HM í hanbolta en það er minni en enginn áhugi fyrir handbolta hérna í Argentínu þannig að þeir sýndu bara leikina með argentínska liðinu. Þannig að ég fylgdist bara með íslensku leikjunum í beinni útsendingu í útvarpinu og á Vísi.is.

Um daginn fór fjölskyldan á hátíð sem var með tónleikum með þjóðlagatónlist og einhverskonar argentínskum kúrekum. Finn enga íslenska þýðingu á þessu en það eru ótamdir hestar og síðan reyna kúrekarnir að sitja á hestinum í ákveðinn tíma án þess að vera kastað af baki. Þetta var haldið á fótboltaleikvangi sem var alveg yfir fullur af fólki. Það var svaka stemning og mér fannst mjög gaman að sjá þetta. Fann myndband sem sýnir pínu frá þessari hátíð, þó að þið skiljið ekki talið eru myndirnar skemmtilegar :)
http://www.youtube.com/watch?v=3-XTP5INMBQ 
 
 
Fullt af fólki!
 

Við fórum líka á tvenna tónleika í Carlos Paz sem er mikill ferðamannabær. Bærinn var svo fullur af fólki að þetta var eins og að vera á Menningarnótt í miðbænum og svona er þetta víst allar helgar sumarsins! Í bæði skiptin voru líka flottar flugeldasýningar eftir tónleikana :D

 
Það rigndi "pínu" áður en tónleikarnir byrjuðu
Ég var síðan ekkert smá glöð þegar ég fékk sendan afmælispakka frá Íslandi og hann kom einmitt daginn fyrir afmælið. Það var frekar skrítið að vita að klukkan 9 um kvöldið þann 17 átti ég afmæli á Íslandi. Ég átti alveg frábæran afmælisdag og það komu nokkrir krakkar úr bekknum í heimsókn og síðan voru systkini mín hérna búin að gera köku fyrir mig. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég á afmæli um sumar og í sól og það var skemmtileg tilbreyting. Ég fékk æðislegar afmælisgjafir og afmæliskveðjur á Facebook á þremur tungumálum :D Það var meira að segja bökuð rosa flott afmæliskaka í Frostaskjólinu þrátt fyrir að ég væri hinum megin á hnettinum.
Afmælissending frá Íslandi

 
Í gær fórum við fjölskyldan svo í bíltúr og keyrðum yfir fjöll á torfæruvegum og útsýnið var mjög fallegt. Við stoppuðum hjá einni á sem var eins og litla strönd á bakkanum og eyddum deginum í að vera í ánni í sólbaði.
-Guðbjörg Eva

Útsýni


Í ánni


 

Friday, January 4, 2013

Jól og áramót

Þetta var án efa skrítnasti aðfangadagur sem ég hef upplifað! Það var voða lítið um jólaskreytingar á húsunum og það gladdi mig og dönsku vinkonu mína mikið þegar við sáum svakalegar jólaskreytingar, jólasveininn og jólaálfa í einni verslunarmiðstöðinni :D Ég byrjaði aðfangadaginn á því að tala við fjölskylduna mína á Skype og ég verð að viðurkenna að það var erfitt að sjá jólatréð heima í Frostaskjólinu. Ég gerði svo "íslenska" ostaköku til þess að hafa í eftirrétt um kvöldið. Þegar ég vaknaði úr siestunni minni skellti ég mér í bikini og fór í sundlaugina. Þetta var ekkert smá heitur dagur og hitinn fór upp í 40 gráður. Við borðuðum með frændfólki fjölskyldunnar og hérna er ekki byrjað að borða kvöldmat fyrr en eftir klukkan tíu. Á miðnætti var skálað og sprengdir flugeldar. Síðan var farið inn og pakkarnir frá jólasveininum opnaðir og ég fékk bol, ökklaband og eyrnalokka. Eftir það var eftirrétturinn borðaður og kakan mín sló alveg í gegn :D Það leið síðan yfir eina gamla konu út af hitanum en hún jafnaði sig sem betur fer. Það voru ennþá 28 gráður þegar við keyrðum heim klukkan hálf þrjú um nóttina!! 
Ég og argentínskur jóla-eftirréttur

Öll fjölskyldan
 Á jóladag safnaðist fjölskyldan saman heim hjá okkur og það var borðað asado. Abril fékk hjólabretti í jólagjöf og ég sýndi enga sérstaka byrjendahæfileika þegar ég fékk að prófa...
Það var sem betur fer ekki eins heitt á gamlárskvöld og á aðfangadag. Fjölskyldan safnaðist saman heima hjá okkur og við borðuðum heilgrillaða geit (ef ég skildi rétt...) Á miðnætti voru flugeldarnir sprengdir og svo skálað. Ostakakan mín hafði verið svo vinsæl að ég var beðin um að gera hana aftur fyrir gamlárskvöld :) Um klukkan tvö fór ég svo í áramótapartý heima hjá einni bekkjarsystur minni. Þar var öll stórfjölskyldan hennar og svo vorum við tíu úr bekknum. Það var dansað fram á nótt við alvöru argentínska partý tónlist :D


Áramóta geitin
Við að búa til alfajores
Um daginn hittumst við nokkur úr bekknum og ég lærði að gera alfajores sem ég held að sé alveg  sér-argentínskt. Ég fékk uppskriftina þannig að ég get vonandi gert þau þegar ég kem til Íslands!


Í gær hitti ég tvær af skiptinema vinkonum mínum frá Danmörku og Þýskalandi (vel mér greinilega vini frá framandi löndum!). Við fórum í bíó og það var ekki verið að sýna neina mynd á ensku þannig að við fórum á teiknimynd á spænsku. Ég var frekar stolt af sjálfri mér hvað ég skildi af talinu :)

Ég og Amalie frá Danmörku
Nýja gæludýrið mitt! Þið sjáið stærðina miðað við tappann
Það er búið að vera mjög skrítið að vera svona langt í burtu frá öllum á Íslandi yfir jólin en mér fannst ótrúlega gaman að fá að prófa eitthvað sem er svona allt öðruvísi öllu sem ég er vön.
Guðbjörg Eva